Færsluflokkur: Umhverfismál

Álver og flugfloti Íslands - samanburður á losun CO2

Samgönguráðuneytið birti skýrslu í ágúst 2008 um losunarheimildir á koltvísýringi í flugi. Þar kemur fram í töflu 4 að meðallosun áranna 2004 – 2006 var 2.948.169 tonn. Eftir því sem næst verður komist á þetta við um allan flugflota Íslands hvar í heiminum sem starfsemin fer fram. Í sömu töflu var sett fram spá fyrir íslenska flugflotann fram til ársins 2017. Niðurstöðurnar eru sýndar sem rauð lína á meðfylgjandi grafi. Ennfremur eru áætlaðar losunarheimildir fengnar úr sömu heimild sýndar.

Til samanburðar er losun allra íslensku álveranna sýnd á sama grafi (blá lína). Í þessum samanburði er því spáð að framleiðsluaukning vegna fyrsta áfanga Norðuráls Helguvíkur (90.000 tonn á ári) og væntanleg framleiðsluaukning hjá Alcan á Íslandi (40.000 tonn á ári) verði orðin að veruleika á árinu 2012 og álframleiðsla í Helguvík verði komin í 180.000 tonn á ári árið 2015.

FLUG VS áLVER

Myndin sýnir losun CO2 frá íslensku flugi (flugvélar skráðar í eigu íslenskra flugfélaga) í samanburði við losun frá íslenskri álframleiðslu.  

 Heimild

Losunarheimildir á koltvísýringi (CO2) í flugi - Skýrsla stýrihóps um losunarheimildir á koltvísýringi (CO2) í flugi. Reykjavík : Samgönguráðuneytið, 2008.


Hvers vegna er rétt að framleiða ál á Íslandi ?

Hvers vegna eiga Íslendingar að taka þátt í betri framtíð komandi kynslóða með uppbyggingu í íslenskum áliðnaði í dag?

Samkvæmt skýrslunni Energy savings by light weight - II. Final report frá IFEU Institute fur Energie- und Umweltsforschung í Heidelberg frá 2004 skiptist orkunotkun heimsins gróflega í þrjá flokka; Iðnað, Samgöngur og Heimili og annað eins og sýnt er á mynd 1.

ORKUNOTKUN

Mynd 1 Myndin sýnir áætlaða skiptingu orkunotkunar heimsins árið 2000. Sá hluti sem merktur er Heimili / Annað inniheldur t.d. orkuþörfina vegna hitunar og lýsingar heimila, verslana, skóla, heilsugæslu sem og allrar annarrar orkuþarfar mannkynsins sem ekki flokkast undir samgöngur eða iðnað.

Samgönguhluti kökunnar er sá hluti hennar sem vex hraðast samkvæmt upplýsingum frá International Energy Agency og sá hluti orkunotkunarinnar sem helst stendur í vegi fyrir markmiðum um minni losun CO2 á heimsvísu.  Þess vegna hafa alþjóðlegar stofnanir lagt herslu á að samgönguiðnaðurinn vinni að léttari farartækjum á öllum sviðum og á það jafnt við um bíla, skip, lestar og flugvélar. Helsta vopn þeirra sem vinna í þessum málum er aukin notkun léttari byggingarefna eins og til dæmis áls. Umtalsverðum árangri hefur verið náð í þróun ýmissa álblanda en ef borin er saman eðlisþyngd áls og stáls (ST36) er munurinn næstum því þrefaldur.  Samkvæmt niðurstöðu IFEU sem nefnd var hér að framan er áætlaður sparnaður á losun CO2 á líftíma ýmissa farartækja sýndur á mynd 2.

IFEU FIG 3 - ISLENSKA

Mynd 2 Myndin sýnir áhrifin af léttari samgöngutækjum og samanburð á ávinningi fyrir minnkaða losun CO2 fyrir hver 100 kg sem tekst að létta tækin.

Áhrifin  af því að létta meðal flugvél um 100 kg eru 1.500.000 – 2.000.000  kg minni losun CO2 í andrúmsloftið á líftíma flugvélarinnar.  100 kg sparnaður í þyngd gæti hugsanleg orsakast af 200 - 300 kg notkun af áli og þá væri CO2 losun vegna þeirrar framleiðslu á Íslandi 340 – 550 kg.  Sparnaðurinn er augljós. Sambærilegar tölur fyrir meðal fólksbíl væru 2.000 – 2.300 kg minni losun CO2 fyrir 340 – 550 kg losun frá íslenskum álverum.

Ávinningurinn af notkun áls ætti að vera augljós út frá þessum einfalda samanburði. Næsta spurning er hvers vegna ættum við að framleiða ál hér á landi en ekki að eftirláta öðrum þessa starfsemi. Þar er því til að svara að álframleiðsla sem byggir á endurnýtanlegum og umhverfisvænum orkugjöfum eins og sú íslenska er mun umhverfisvænni en álframleiðsla sem nýtir raforku sem framleidd er með gasi eða kolum eins og sjá má á mynd 3.

áL + ORKUGJAFAR CO2

Mynd 3 Innbyrðis mismunur á losun CO2 vegna álframleiðslu og orkuöflunar.

Fyrir hvert kg sem framleitt er af áli með hreinu rafmagni (framleitt með vatnsaflsvirkjun) er sambærileg losun álvers og orkuvers rúmlega fjórum sinnum meiri fyrir gasorkuver eins og notast er við í álframleiðslu við Persaflóa og allt að tíu sinnum meiri fyrir kolaorkuver eins og byggt er á víða um lönd meðal annars í Kína og Bandaríkjunum. Eins og sýnt hefur verið fram á í þessari grein getum við Íslendingar stuðlað að bjartari framtíð fyrir börnin okkar en ella ef við tökum þátt í umhverfisvænni álframleiðslu með okkar hreinu orkugjöfum.

Heimildir

1. Transportation projections in OECD regions. Detailed report. Paris : International Energy Agency, 2002.

2. Energy savings by light weight - II. Final report. Heidelberg : EFEU Institute für Energie- und Umweltsforschung Heidelberg GmbH, 2004.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband